Englendingar vildu kaupa Dettifoss

Oddur V. Sigurðsson vélfræðingur og fossakaupandi í lok 19. aldar tók á leigu, samkvæmt samningi dags. 15. júní 1898, fossa í landareign kirkjujarðarinnar Hafurstaða í Axarfjarðarhreppi N-Þingeyjarsýslu. Samning þennan gerði Oddur við Þorleif Jónsson á Stað í Öxarfirði og eru fossarnir leigðir Oddi „og hverjum þeim, sem hann kann að fá í fjelag með sjer til að reka vjelar með afli þessara fossa.“ Skyldi leigan fyrir fossana nema 3% af jarðarverði og byrja að greiðast í byrjun þess ár sem byrjað yrði að reisa mannvirki við einhvern fossana.  Samningurinn skyldi gilda svo lengi sem leiguupphæð yrði greidd en falla ellegar niður af sjálfu sér ef ekki yrði greitt. Ef fyrirtæki það sem rekið yrði með afli fossa þessara reynist arðsamt áskilur jarðareigandi sér rétt til, að 10 árum liðnum, að hækka ársleiguna um 50% eða upp í 4½ prósent af jarðverðinu eins og það var seinast virt.[1]

Oddur afsalaði sér samningi þessum ásamt tilheyrandi réttindum árið 1907 þegar hann framseldi samninginn til Einars Benediktssonar sýslumanns og er afsalið undirritað af Oddi þar sem hann er staddur í Brooklyn þann 22. nóv 1907.[2]

Fyrir hönd Einars Benediktssonar skrifar síðan Sturla Jónsson Stjórnarráðinu í febrúar 1909 og biður það að staðfesta samninginn á milli séra Þorleifs Jónssonar á Stað í Axarfirði og Odds frá 15. júní 1898 en eins og áritun á samningseftirritinu bar með sér hafði Oddur framselt Einari Benediktssyni allan rétt sinn samkvæmt samningnum, skrifar Sturla.[3] En Sturla Jónsson kaupmaður í Reykjavík kemur oft við sögu fossaverslunarinnar á fyrstu árum 20. aldar.

Stjórnarráðið sendir „Íslands Biskupsdæmi“ bréf Sturlu Jónssonar. Þar svarar Þórhallur Bjarnason og gerir ýmsar athugasemdir við samninginn. Segir hann fyrst í því sambandi að miðað við verðgildi jarðinnar sé leigan sama og ekki neitt. „Skiftir það að vísu minstu þó leigan sé lág, þar sem óbeina gagnið verður miklu meira fyrir bygðina og landið, ef fyrirtækið lánast.“ Ef sérstök greiðsla yrði fyrir landsnotin og grunnstæði mætti auka leiguna hæfilega til viðbótar við þá leigu sem felast mundi í afnotum fossanna. En fyrir hina nauðsynlegu landspildu til hvers kyns mannvirkja væri hin tilskilda leiga hlægilega lítil. Einnig er bent á að í samninginn vanti ákvæði um að byrjað sé að nota fossinn innan ákveðins tíma auk þess sem samningurinn kynni í fleiri greinum að rekast á lög nr. 55 frá 1907, eða fossalaganna.[4]

Stjórnarráðið skrifar Sturlu Jónssyni og segist fúst að staðfesta samninginn með svofelldum breytingum; leigutími sé ákveðinn 100 ár, að ársleiga sé goldin frá þeim tíma er byrjað er á mannvirkjum við fossana en þó ekki síðar en frá 1. janúar 1912, án tillits til hvort byrjað er á mannvirkjum eða ekki, og að leigutaki verði að sjálfsögðu að bera alla ábyrgð á skaða þeim eða átroðningi er leiða kynni af notkun vatnsaflsins fyrir landeigendur eða aðra.[5]  Sturla samþykkir þetta, skv. bréfi 2. apríl 1909.[6] Í kjölfarið samþykkir Stjórnarráðið leigusamninginn milli Odds V. Sigurðssonar og Þorleifs Jónssonar með viðbættum framangreindum breytingum.[7]  Þessi hundrað ára leigutími skyldi teljast frá dagsetningu bréf Stjórnarráðsins, þ.e. frá 17. apríl 1909.[8]  Sú tímasetning var samkvæmt ósk Sturlu Jónssonar.[9]

Þann 20. mars 1911 skrifar yfirréttarmálaflutningsmaður Eggert Claessen í Reykjavík Danakonungi fyrir hönd Alfred Ernest Barton, framkvæmdastjóra Winchester House, Old Broad Street í London „sem sækir allra náðarsamlegast um leyfi samkvæmt lögum 22. nóv. 1907 til þess að eignast fossa og notkunarrjett á fossum á Íslandi svo og löndum, sem þeir eru í.“  Ástæða þessarar umsóknar var sú að í ráði var að Alfred Ernest Barton þessi keypti af hlutafélaginu Gigant öll fossaréttindi félagsins á Íslandi, þar á meðal réttindi þess yfir Dettifossi og önnur réttindi félagsins yfir löndum jarða þeirra sem land áttu að fossinum. Bréfið er samið af Eggert Claessen sem hefur þýtt það fyrir Englendinginn, John Collison Hailey, sem skrifar undir.[10] Hann er lögfræðingur Bartons og hefur umboð hans til að reka erindi hans til íslensku stjórnarinnar og senda fyrrnefnda umsókn um að kaupa fossa á Íslandi til konungs.[11] Eggert Claessen yfirréttarmálaflutningsmaður kemur hér við sögu sem sá sem rak mál margra sem vildu fjárfesta í íslensku vatnorkuauðlindinni með því að kaupa eða leigja íslenska fossa í byrjun 20. aldar.

Stjórnarráðið svarar Hailey því að það muni „allra mildilegast“ leggja það til við konung að neita téðum Barton um að „öðlast eignarrjett og notkunarrjett á Dettifossi“ til að setja þar upp verksmiðjur. Það mun verða lagt til, segir áfram að leyfið veitist til 99 ára og verði, auk skilyrða sem lög nr. 55 frá 1907 (fossalögin) segja fyrir um, bundið þeim skilyrðum að fossaflið sé notað til fulls eða a.m.k. að meginaflið úr fossinum, að byrjað verði að hagnýta fossaflið svo sem sagt var innan 6 ára, að notkuninni verði haldið áfram um leyfistímann og að ekki verði farið svo með fossinn eða land umhverfis, að fossaflið spillist eða minnki til muna.[12]

Ekkert varð úr áformum Englendinganna um að virkja Dettifoss og skal ósagt látið hér hvort þeir féllu frá hugmyndinni af því að þeir fengju ekki fossinn keyptan til eignar eða af öðrum ástæðum. Árið 1912 er fossafélagið Gigant, sem Einar Benediktsson stofnaði til með erlendum fjárfestum, enn með leigurétt yfir Dettifossi samkvæmt  samningnum frá 15. júni 1898 sem Oddur V. Sigurðsson árið 1909 framseldi félaginu. Greiðir Eggert Claessen yfirréttarmálaflutningsmaður í Reykjavík, Stjórnarráðinu 54 kr. í leigu fyrir fossaréttindi í landi Hafurstaða fyrir hönd félagsins.[13]

© Unnur Birna Karlsdóttir


[1] ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. Dagb. 2 nr. 849. Eftirrit af leigusamningi um Dettifoss, dags. 15. júní 1898.

[2] ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. Dagb. 2 nr. 849. Eftirrit af afsalsyfirlýsingu Odds V. Sigurðssonar, dags. 22. nóv. 1907.

[3] ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. Dagb. 2 nr. 849. Bréf Sturlu Jónssonar til Stjórnarráðs Íslands, dags. 17. feb. 1909.

[4] ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. Dagb. 2 nr. 849. Bréf Þórh. Bjarnasonar til Stjórnarráðs Íslands, dags. 2. mars 1909.

[5] ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. Dagb. 2 nr. 849. Bréf frá Stjórnarráði Íslands til Sturlu Jónssonar, dags. 2. apríl 1909.

[6] ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. Dagb. 2 nr. 849. Bréf Sturlu Jónssonar til Stjórnarráðs Íslands, dags. 17. april. 1909.

[7] ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. Dagb. 2 nr. 849. Bréf frá Stjórnarráði Íslands til Sturlu Jónssonar, dags. 17. april 1909.

[8] ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. Dagb. 2 nr. 849. Bréf frá Stjórnarráði Íslands til Sturlu Jónssonar, dags. 1. júni 1909.

[9] ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. Dagb. 2 nr. 849. Bréf Sturlu Jónssonar til Stjórnarráðs Íslands, dags. 7. maí 1909.

[10] ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. Dagb. 3 nr. 506. Bréf til konungs frá Hailey, samið á íslensku af Eggert Claessen, dags. 20 mars 1911.

[11] ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. Dagb. 3 nr. 506. Bréf skrifað af A.E. Barton, ódagsett, og bréf J.Collison Hailey til Stjórnarráðsins, dags. 20. mars 1911.

[12] ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. Dagb. 3 nr. 506. Bréf frá Stjórnarráði Íslands til J.C. Hailey, dags. 24. mars 1911.

[13] ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. Dagb. 3 nr. 506. Bréf frá Eggert Claessen til Stjórnarráðs Íslands, dags. 13. des. 1912.

Auglýsingar
Þessi færsla var birt í Brot úr virkjanasögunni og merkt sem , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s