Fossaleiga í Þingeyjarsýslu í lok 19. aldar – stuðningur og gagnrýni

Blaðið Austri, sem gefið var út á Seyðisfirði birti þann 10. maí 1899 fréttir af ferðum Odds. V. Sigurðssonar vélfræðings sem komið hafði til Seyðisfjarðar þá um vorið og ætlaði að ferðast og skoða stórfossa eystra og nyrðra. Oddur hafði að vísu orðið frá að hverfa þar eð hann sá að hann myndi lítið komast áfram fyrir ófærð og ákvað því að fara aftur til Lundúna og koma aftur seinna þá um sumarið til að skoða stórfossa landsins.

Þegar hér var komið sögu hafði Oddur þegar tekið á leigu fossa í Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljóti, Dettifoss þeirra stærstur og síðan Goðafoss. Hann varð fyrstur  manna til að taka fossa á leigu hér á landi. Á árunum 1897-1898  leigði hann vatnsréttindi í Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljóti. Í Jökulsá gilti leigan um alla fossa í landi Reykjahlíðar, Svínadals og Hafurstaða. Leigutími var ótiltekinn og leiga hæfist  þegar farið yrði að nota fossana. Engin skilyrði voru sett um notkun þeirra. Ársleiga skyldi vera 3-4 ½% af virðingarverði jarðar. Samningur um leigu á vatnsréttindum Hafurstaða gilti til 100 ára, kvað á  um að skaðabætur skyldu greiðast fyrir öll jarðspjöll og átroðning og félli úr gildi  ef engin leiga greiddist fyrir árslok 1910. Leigð vatnsréttindi í Skjálfandafljóti náðu til allra fossa í landi Ljósavatns (til 200 ára),  Barnafells og Hriflu (leigutími ótiltekinn en félli úr gildi ef engin leiga greiddist fyrir árslok 1910). Leiga hæfist  þegar farið yrði að nota fossana. Engin skilyrði voru sett um notkun og ársleiga yrði 3-4 ½% af virðingarverði jarðar. Leigusamning vegna vatnsréttinda í landi Ljósavatns mátti framlengja eftir 200 ár gegn lægri leigu en útlendingar kynnu að bjóða. Þetta ákvæði sýnir að menn gerðu jafnvel ráð fyrir að staðan yrði  sú eftir tvær aldir að útlendingar ásældust íslenska vatnsorku eins og blikur voru á lofti um að þeir gerðu strax þarna í lok 19. aldar og kom síðar á daginn örfáum árum eftir að Oddur V. Sigurðsson hóf að tryggja sér vatnsréttindi í helstu fossum norðurlands, þar af voru öflugastir Dettifoss og Goðafoss.

Vonir Odds, samkvæmt skrifum í Seyðisfjarðarblaðinu Austra vorið 1899, stóðu til að unnt yrði að framleiða kolakalkstein hér á landi. Til þess þurfti rafmagn og var slíkur iðnaður stundaður við stórfossa bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Oddur gerði sér vonir um að þetta væri hægt á Íslandi líka, eftir að hann fann kalkæð í Eskjunni sem vinna mætti úr kalk en kolin þurfti að flytja inn, sagði áfram í blaðinu. Greinarhöfundur bar Oddi vel söguna. Sagði hann unna Íslandi og vilja styðja að verklegri viðreisn þess og framförum af fremsta megni. Væri hann „líklegastur allra núlifandi Íslendinga til að framkvæma í verkinu, leggjum vér honum ekki af vanhyggni sjálfir tálmanir í veginn.“ Oddur ætlaði ekkert að skipta sér af hinum smærri fossum landsins með sjó fram, sagði áfram, er helst væru við hæfi Íslendinga til atvinnureksturs. „En hann ætlar að ráðast á fossatröllin í stórám landsins, langt upp í landi, sem margar milliónir króna þarf til að temja og hagnýta í þjónustu mannlegs anda og  … framfara, og sem vér Íslendingar um margar aldir, og máske aldrei, höfum fjármagn til að hagnýta oss“. Greinarhöfundur taldi Íslendinga ekki hafa þekkingu né fjárhagslegt bolmagn til að nýta stórfossana, því auk vélanna sjálfra við fossana þyrfti að leggja langar járnbrautir að flestum þeirra og byggja rammgerðar hafnir. “En það sjá allir, hvílíkan hagnað þvílík risafyrirtæki flyttu landinu, bæði í þekkingu og auði“, sagði hann og spurði: „Hvað hefði það ekki að þýða fyrir Suðurland að járnbraut yrði lögð frá Reykjavík að Gullfossi í Hvítá, braut yrði lögð eptir því endilöngu frá Kirkjubæjarfossi niður Fagradal og ofaná Búðareyri í Reyðarfirði o.s. frv.?“ Í framhaldi af þessu hvatti hann fossaeigendur til að leigja Oddi V. Sigurðssyni fossa í landi sínu. Með þeirri leigu myndu menn fá „góð kjör og sæmilega vexti af arðlausri eign; og ættu allir stórfossaeigendur að nota sér af þessu leigutilboði Odds, sem allra fyrst“, segir í blaðinu.

Austri birti aðra grein um fossaleiguáform Odds og í þetta sinn undir nafni. Greinina skrifaði Jón Jónsson (alþingismaður frá Sleðbrjót í Múlasýslu). Greinin er stuðningsyfirlýsing við Odd V. Sigurðsson og áform hans um að reyna að fá velstæða aðila erlendis til að fjármagna virkjanir á íslenskum fossum og iðnrekstur. Til að koma slíku fyritæki á fót þurfti íslenskan kunnáttumann, sagði Jón, og væri Oddur kjörinn maður vegna þekkingar sinnar á vélfræði og tengsla við umheiminn vegna menntunar sinnar og búsetu í Lundúnum. Jón hvatti menn til að vera opnir fyrir að leigja Oddi fossa.  Hann væri manna líklegastur til að koma því í framkvæmd að „tilraun verði gerð til að nota okkar stærstu fossa til þessa.“

Jón ítrekaði að Oddur vildi ekki kaupa neina fossa því hann væri þess sinnis að þeir tilheyrðu Íslandi og að Íslendingar ættu þá sjálfir. Hann vildi aðeins fá stórfossana leigða í því markmiði að sjá hverju hann fengi áorkað hjá erlendum félögum í þá átt að þeir yrðu notaðir til iðnaðar. Ef af yrði að virkjað yrði í þágu iðnaðarframleiðslu biðist möguleiki til að fá verð fyrir fossana, um lengri eða skemmri tíma, og það upphæð sem um munaði, sagði Jón. „Áhættan engin; fari félagið um koll, þá hættir það að borga leigu og um leið er samningurinn allur úr gildi, og þá eiga menn sína fossa eins eptir sem áður.“

Boðskapur Jóns var að benda á að Íslendingar höfðu að svo stöddu hvorki fjárhagslegt bolmagn né verkþekkingu til að nýta náttúru landsins: „Það er víst og satt, að vér Íslendingar erum fátæk og fámenn þjóð, og oss vantar flesta þá hluti, er með þarf til þjóðþrifa og framfara; en eitt vantar oss allra mest,“ sagði hann, “og það er kunnátta til að hagnýta oss land vort og þá krapta, sem það hefir að geyma. Landið liggur verðlítið og óræktað.“ Það þurfti að gera íslenska náttúru að verslunarvöru, öðru vísi hefði hún ekkert verðgildi, brýndi Jón fyrir löndum sínum. Gefa þurfti bújörðum verðgildi með jarðrækt og fossunum með virkjunum. Verð fengju þeir fyrst „þegar búið er að setja niður hjá þeim áhöld og vélar til að temja þeirra tröllaafl“, skrifaði Jón alþingismaður. Fá lönd væru eins vel sett með fossa sín og Ísland, hélt hann áfram, „þvílíkur aragrúi sem hér er til af handhægum smáfossum, sem eru eins og sjálfskjörnir til þess, að vér með vorum litlu efnum getum notað þá til eigin þarfa. Stóru fossarnir þar móti virðast alls ekki vort meðfæri, svo langt fram í tímann, sem nú verður séð,“ spáði hann en ítrekaði að engu að síður væri óráðlegt að selja þá útlendingum.

Í Reykjavíkurblöðunum á sama tíma var tónninn allur annar í garð áforma Odds. V. Sigurðssonar og þreifinga erlendra manna yfirleitt í þá átt að komast yfir jarðir og fossa í hér á landiu.  Í blaðinu Ísafold  13. apríl 1899 var fossaleiga Odds gagnrýnd og hann sagður ferðast um  þeirra erinda að „klófesta sem mest af góðum fossum [hér] á landi, einkum nærri sjó, handa einhverjum enskum stórgróðamönnum, sem vita, að fossarnir verða megin-iðnaðarafl næstu aldar og því vís uppgripa-gróðavegur“ Var Oddur sakaður um að ætla að ná fossunum í tíma á meðan þeir fengjust fyrir nánast ekki neitt. Spurt var hvort landsmenn ætluðu ekki að „fást til að rumskast og líta við hagnýting fossa-aflsins til rafmagnsiðnaðar fyr en um seinan, fyr en aðrar þjóðir væri löngu búnar að taka þann bita frá munninum á oss?“ Hitt væri þó enn hrappallegra ef landsmenn gerðust svo „glapvitrir, að láta fleka út úr sér jafn-stórkostlega auðsuppsprettu, eins og fossarnir eru eða má sjálfsagt telja að verði þá og þegar, fyrir sama sem ekki neitt, eða með þeim glæfraskilmálum, að kaupverð fyrir eða leiga eftir þá greiðist því að eins eða þá fyrst, er farið verði að nota fossana.“ Þar með væri þetta „stórkostlega vinnuafl lagt í einokunarlæðing um ókominn tíma, ef til vill aldur og ævi, ― meira að segja í einokurlæðing útlendrar yfirgangsþjóðar, en landsmönnum sjálfum haldið í sama örbirgðarkyrking sem að undaförnu. Ísafold benti á Norðmenn sem víti til varnaðar en þar óttuðust margir að fossaaflið lenti í höndum útlendinga og hvöttu til að ríkið eignaðist sem mest af fossum eða vatnsafli landsins svo að einstakir menn gætu ekki okrað á því síðar meir og staðið almenningsheill fyrir þrifum. Á Íslandi ríkti hins vegar heimska og óframsýni í þessum efnum, að mati þess er ritaði í  Ísafold.

Viku síðar hélt Ísafold áfram á sömu nótum og deildi á stjórn landsins fyrir að vera óframsýn og lítt vakandi yfir hagsmunum landsins varðandi fossana og eignarhald á þeim.  Svo mikill doði var  yfir stjórnvöldum í þessum efnum að mati greinarhöfundar að það virtist sem hún hefði ekki nokkurt veður af því að útlendir auðmenn væru að ágirnast fossa landsins. „Mjög vafasamt jafnvel, hvort hún hefir hugmynd um, að nokkur foss eða nokkurt vatnsfall sé til hér á landi.“ Það var ekki lítið í húfi að mati greinarritara sem taldi miklar líkur á að í fossunum fælust mestu framtíðarauðæfi þjóðarinnar. Fossar voru þegar orðnir sumum menningarþjóðum að ógrynnum fjár, segir hann, og þó var það aðeins byrjunin samanborið við það sem í vændum var, svo framarlega sem ekki yrði fundið upp nýtt afl, enn ódýrara og auðveldara viðfangs.  „Til að benda á, hve afarmiklar og glæsilegar vonir menn gera sér um fossana, nú á dögum,“ vísaði hann til þeirra ummæla prófessors Júlíusar  Thomsens prófessors, „eins af helztu vísindamönnum Dana, í fyrirlestri, er »Eimreiðin« flutti þá um vorið, „að iðnaðurinn muni smámsaman flytjast frá kolalöndunum til fjallalandanna, sem hafa nóg vatnsafl.“

Greinarhöfundur sagði ekki nema eðlilegt að mörgum Íslendingi veitist örðugt að gera sér grein fyrir mikilvægi þeirrar breytingar þar sem landsmenn hefðu haft svo lítið af iðnaði að segja. En eitt gæti öllum skilist: „að einmitt eftir iðnaðarhorfunum nú á dögum, getur svo farið, að Ísland verði eitt af auðlöndum veraldarinnar fyrir fossa sína, á sinn hátt eins og England hefur orðið það fyrir kol sín.“ Hann spáir því að innan næstu framtíðar mætti fara nota eitthvað af íslensku fossunum til „stórkostlegs hagnaðar fyrir þjóð vora, og alt annað en ólíklegt, að þeir geti orðið henni svo mikil auðsuppspretta með tímanum, að hún geti jafnvel komist framarlega í röð Norðurálfuþjóðanna, að því er snertir auðsæld og velgengni.“  Greinarhöfundi fannst ekki til of mikils ætlast að stjórnin léti sig málið skipta og biði hennar þríþætt verkefni á því sviði. Í fyrsta lagi að láta rannsaka hvert gagn gæti orðið af fossunum. Í öðru lagi að koma á fót fyrirtækjum til að færa sér í nyt væntanlega niðurstöðu þeirra rannsókna. Í þriðja lagi að tryggja þjóðinni framtíðararðinn af fossunum, girða fyrir að hann renni allur í vasa útlendra auðkýfinga, eins og það var orðað. Ekkert af þessu hefði stjórninni hugkvæmst, bætti hann við.
Reykjavíkurblaðið Þjóðólfur fjallaði um málið á svipuðum nótum og gagnrýndi verslunina með fossana. Það hafði þó meiri tiltrú á frumkvæði þingsins í að gæta hagsmuna Íslendinga gagnvart útlendingum heldur Ísafold. Í Þjóðólfi 21. apríl 1899 er varað við vaxandi ásælni útlendinga í svohljóðandi grein:

„Athugavert í meira lagi er það, hvernig útlendingar og útlend auðmannafélög eru farin að teygja angalýjurnar til vor: til landeigna hér, málma í jörðu og fossa. Þetta verður ekki til þess að flytja fé inn í landið, heldur til að svipta oss því, er vér höfum, til að leggja á oss hapt einokunar og ófrelsis, binda hendur vorar á ókomnum tíma, og ef til vill gera oss að ánauðugum þrælum erlendra kúgara, er sjúga úr oss síðasta blóðdropann. Varið ykkur því landar góðir á þessum útlendu fjárgróðafélögum, er vilja fá ykkur til að láta af hendi, til sölu eða leigu, spildur úr jörðum yðar. Þér vitið ekki, hve mikils virði það getur orðið fyrir sjálfa yður eða eptirkomendur yðar, það sem útlendingarnir eru nú að seilast eptir  hjá ykkur fyrir lítið gjald. Og furðulegt má það heita, sem heyrzt hefur, að enskt félag nokkurt ætli sér að ná tangarhaldi á öllum fossum á Íslandi, og enn furðanlegra, hafi því nú þegar orðið töluvert ágengt í því. En þessir góðu herrar hafa líklega ekki athugað það, að þingið getur hér tekið í taumana, og bannað einstökum útlendingum og félögum að gera tilraunir til þess að »leggja undir sig landið« ― á hvern hátt sem, því er varið ― eða takmarkað það svo, að engin hætta stafi af því. Og það er eitt meðal annars, sem þingið í sumar verður að íhuga, því að síðar getur það verið um seinan. Það er seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið í hann.“

Þannig sýndist sitt hverjum um fossaleiguna strax í lok 19. aldar. Sumir töldu hana til framfara, aðrir áliti hana jaðra við þjóðernissvik og atlögu að hagsmunum Íslendinga gagnvart auðlindum í eigin landi.

© Unnur Birna Karlsdóttir

Heimildir:

Austri 10. maí 1899.
Ísafold  13. apríl 1899.
Ísafold 27. maí 1899.
Sigurður Ragnarsson: „Fossakaup og framkvæmdaáform.“ (Saga 1977), bls. 128-129.
Sveinn Ólafsson: „Sala orkuvatna og greining þeirra um landið.“ Nefndarálit minnihluta fossanefndar 1917-1919. Rvík. 1919, bls. 49-51.
Þjóðólfur 21. apríl 1899.

Auglýsingar
Þessi færsla var birt í Brot úr virkjanasögunni og merkt sem , , , , , , , , , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s