Laxárdeilan: Sprenging stíflunnar í Miðkvísl

Þann, 25. ágúst 2010, voru 40 ár síðan stíflan í Miðkvísl var rofin en hún er ein þriggja kvísla sem vatn fellur um úr Mývatni í Laxá. Laxárvirkjun lét gera stífluna á sínum tíma, í óþökk landeigenda, og var tilgangurinn með stíflunni sá að stjórna rennslinu úr Mývatni niður í Laxá í þágu Laxárstöðva I og II sem virkjuðu fall Laxár niðri við Brúar, efsta bæ í Aðaldal, rétt neðan við dalsmynni Laxárdals. Heimamenn tóku sig saman eins og frægt er í sögunni og rufu stífluna og notuðu til þess traktora og skóflur og dínamít til að rjúfa steypta hlutann.  Blöðin slógu því upp að notað hefði verið dínamít sem Laxárvirkjun átti og hefði legið á glámbekk og þótti það nokkuð kaldhæðið og kæmi jafnvel vel á vondan, enda var sprenging stíflunnar táknræn mótmæli heimamanna gegn þeim yfirgangi sem þeim þótti þeir hafa þurft að þola allt frá því að Laxá var fyrst virkjuð og enn frekar vegna fyrirhugaðrar Gljúfurversvirkjunar sem átti að rísa í byrjun 8. áratugarins. Undirbúningur hafði staðið árin á undan og voru framkvæmdir við fyrsta áfanga hennar hafnar árið 1970. Sú virkjun hefði haft í för með sér háa stíflu í Laxá við Brúar og að Laxárdalur færi hálfur í kaf,  með byggingum og ræktuðu og óræktuðu landi, auk þess sem Laxá, þeirri miklu og einstöku veiðiá yrði spillt og yrði það óendurkræft og óbætanlegt. Byggð ofan lóns leggðist einnig óhjákvæmilega af. Deilan um þessa virkjunartilhögun, þ.e. Laxárdeilan stóð í mörg ár og af miklum hita, árin 1969 til vorsins 1973, en aðdragandi deilunnar var lengri, eins og ýmsir hafa rakið í ritum sínum um deiluna (hér er vísað til skrifa um Laxárdeiluna eftir Sigurð Gizurarson, Gísla Jónsson og Erling Sigurðarson).

Ég rannsakaði sögu Laxárdeilunnar og birti niðurstöðurnar í kafla í doktorsrannsókn minni í sagnfræði við Háskóla Íslands sem út kom í júní 2010 með titlinum Þar sem fossarnir falla. Náttúrusýn og nýting fallvatna á Íslandi 1900-2008. Í kafla bókarinnar um Laxárdeiluna segir m.a.:

„Þekktasta dæmið um samstöðu heimamanna gegn Laxárvirkjun er þegar þeir sprengdu stífluna í Miðkvísl í ágúst 1970 til að mótmæla með táknrænum hætti áformum um eyðileggingu Laxár og Laxárdals og þeim yfirgangi sem þeim fannst stjórn Laxárvirkjunar hafa sýnt í því máli og fleirum í sambandi við eldri Laxárstöðvarnar, en Miðkvíslarstíflan þjónaði Laxárvirkjun og hafði verið gerð á sínum tíma í óþökk landeigenda. Bílalest til Akureyrar í júlí það sama sumar, sem skipulögð var til að mótmæla virkjuninni og koma formlegum mótmælum á framfæri við bæjaryfirvöld á Akureyri, var einnig táknræn fyrir hina miklu samstöðu heima í héraði gegn fyrirhugaðri virkjun í Laxá.  Samstaða íbúa svæðisins birtist í ýmsu fleiru; t.d. bundust bændur í Laxárdal samtökum um að selja ekki jarðir sínar en til stóð að Laxárvirkjun greiddi matsverð fyrir þær jarðir sem færu undir vatn. Andstæðingar Laxárvirkjunar voru þeirrar skoðunar að baráttan fyrir verndun Laxárdals væri ekki einkamál heimamanna heldur hagsmunamál allra landsmanna, og var því skorað á sem flesta Íslendinga að leggja baráttunni lið, enda væri Laxá eitt dýrmætasta náttúrufyrirbrigði á Íslandi. Laxárdeilan kom náttúruvernd á dagskrá í þjóðmálaumræðunni. ….    Þeir bændur á Laxár-Mývatnssvæðinu sem báru hitann og þungann af barátt­unni gegn virkjun Laxár horfðu á náttúruna með augum þess sem lifir í henni og af henni. Maðurinn nýtti þar náttúruna en var engu að síður hluti hennar, háður henni um afkomu sína en líka í sterkum tengslum við sitt andlega líf og lífshamingju. Laxárdal var lýst sem búsældarlegum dal og tilfinningalegt gildi hans fyrir þá sem þar bjuggu var ítrekað. Lögð var áhersla á fegurð dalsins, sem varð í deilunni tákn íslenskrar sveitasælu eins og hún endurspeglast í rómantískri náttúrusýn um leið og vistfræðileg þekking úr ranni náttúruvísinda fléttaðist saman við svo úr varð eins konar rómantísk vistfræði. Hún stillir upp þeirri mynd að jafnvægi ríki í náttúrunni og þá um leið í sambýli manns og náttúru. Fyrir lífið í Laxárdal jafngilti Gljúfurvers­virkjun hamförum. Við þetta bættist, sögðu andstæðingar Laxárvirkjunar, að þáttur í sögu landsins mundi glatast. Það væru því einnig menningarsöguleg rök fyrir því að standa vörð um byggðina í Laxárdal því saga hennar væri samofin sögu þjóðarinnar … . Sérstaða Laxár sem einnar helstu perlu íslenskra veiðiáa var undirstrikuð í baráttunni gegn virkjun hennar. Í huga áhugamanna um stangveiði var hún gimsteinn í íslenskri náttúru. Þeir sem ætluðu að eyðileggja ána voru „gimsteinaþjófar …““

Þótt miklar deilur hafi staðið um virkjanir síðan á dögum Laxárdeilunnar þá stendur sprenging stíflunnar í Miðkvísl enn upp úr sem táknrænn atburður í sögu baráttu gegn virkjun í nafni náttúruverndar. Slík barátta stendur enn yfir nú árið 2012, eins og t.d. deilan um virkjanir í Neðri-Þjórsá sýnir.  Það er því full ástæða til að halda á lofti þeim sigrum sem hafa unnist til að halda baráttunni fyrir náttúruvernd vakandi og gera þá kröfu á hendur virkjunaraðilum og stjórnmálamönnum að þeir fái ekki alfarið að ráða ferðinni í sambúð lands og þjóðar. Slíka einhliða ákvarðanatöku og aðferð í virkjunarstefnu átti að viðhafa gagnvart íbúum Laxárdals á sínum tíma en þeir mótmæltu kröftuglega, skipulögðu baráttu sína í þaula og höfðu sigur. Og viti menn (og annar lærdómur sem við getum dregið af sögunni); fullyrðingar þeirra sem staðhæfðu í kringum 1970 að ef Gljúfurversvirkjun yrði ekki reist þá færi allt í ólestur og á vonarvöl á Norðurlandi stóðust ekki. Menn fundu einfaldlega aðrar leiðir til að afla raforku, en þá að sökkva byggð með margra alda rætur og eyðileggja gjöfula veiðiá og vistkerfi sem er einstakt á heimsmælikvarða.

© Unnur Birna Karlsdóttir

Auglýsingar
Þessi færsla var birt í Brot úr virkjanasögunni og merkt sem , , , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s